Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
29.12.2008 | 15:40
Til þess eins að halda þræðinum...............
þá birtum vér gamlingjar mynd að erfingja vorum, sem oss tókst að kyrrsetja eitt lítið andartak um daginn.
Við vorum úti að aka í gær þegar hún segir allt í einu.
"Pabbi, þú segir alltaf já við mig"
"Hvað meinarðu?"
"Sko mamma segir alltaf nei en þú segir alltaf já"
Hrökk í kút og flaug í hug hvort ég væri of undanlátsamur við barnið, en áttaði mig svo á því að ég á það til að segja já, já, þegar ég er annars hugar.
"En ég segi oft nei við þig, þegar þú mátt ekki eitthvað"
"Já, ég veit það, var bara að grínast".
Arrrg.........en fær mann til að huxa.
Pís on örð....................
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.12.2008 | 16:53
Þetta er allt saman hérna enn þá................
Lyktin af tölvunni er horfin, ég get svo svarið það. Vírusvarnarkeyrslan hreinsaði smitið þegar þá maður loksins nennti að keyr´ana. Sumir hafa kvartað í vorum háverðugheitum yfir því að hafa fengið linka á einhverjar blaðsíður úti í heimi sendar héðan og þá sérstaklega á Msn. Meira kvartið alltaf.
Ég held að óhreinindin heiti "new budapest"
Jólin koma samt, og hér á bæ er afskaplega mikið að gera. Öll jólalög sem fundin hafa verið upp (af misgáfuðu fólki) eru hér um bil öll numin utanbókar samstundis og sungin við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.
Nema þegar myrkrið er orðið hvað svartast og von er á einhverju jólasveinafíbblinu með pakka í skóinn, þá er kastað sér í rúmið og augun klemmd aftur þangað til Óli tekur öll völd.
"Nei pabbi, þú mátt ekki hafa gluggann opinn. Þá heldur jólasveinninn að við sjáum hann" sagði hún, þegar pabbinn ætlaði að setja rifu á gluggann svo væri einhver möguleiki á að barnið skildi hvernig í ósköpunum jólasveinninn kæmi draslinu inn um gluggann.
Jæja þetta er svo sem ágætt allt saman, en mér minnst þessir jólasveinar vera hin mestu fíbbl. Var ekki hægt að finna auðveldari lausn á málum en að láta þá komast upp með að ganga í gegn um veggi. Ég skildi þetta með strompana á sínum tíma, en sko þeir eru horfnir.
Kannske meira fyrir hátíð í bæ, bæ........................
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.11.2008 | 16:25
Hvort er meira leim að vera umvafinn lopa..................
Sumir sem missa hárið af höfðinu, fá sjálfstraustið aftur með því að safna lopa í andlitið.
Það var sagt mér fyrir ekki svo löngu síðan að ég væri hálf leim í peysunni minni.
Hún var rauð, hvít og móbrún. Held hún hafi verið garðaprjónuð.
Hún var líka hlý og mér þótti vænt um hana.
Ég vann einu sinni með rosknum manni við fiskflökun. Hann var alltaf í lopapeysu og engu undir, vetur sumar vor og haust. Honum var alltaf jafn hlítt, ekki heitt heldur hlítt.
Mér þótti vænt um hann, en hann er dáinn.
ATH: Hrútaskráin er komin út.........................
fyrir að birta þessar leynimyndir.
Þyrfti að fara að komast í tæri við tröll og steingervinga, snjó og vitlaus veður. Það hreinsar vel til í hausnum og gerir mann tilbúnari í að takast á við láglendisrugl og axlarbyrgðar.
En ég skal axla ábyrgð á því sem birtist hér, þó ég eigi engin axlabönd.
Jebb svona eiga hellisbúar að líta út..........
..........og jafnvel svona líka.
En svo má punta sig pínu á milli og setja upp sparibrosið.
Þetta er sko ekki tæmandi listi yfir verðmæti undirritaðs.
Það held ég, maðurinn er bara nokkuð hress með ungana sína, skítt með Icesave...................
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2008 | 18:11
Slagsmálahundar í fangelsi og ný háglansandi stígvél.................
er eitt af því sem stendur upp úr eftir helgina.
Faðir hennar var í rólegheitum að horfa á Silfur Egils Mikla með öðru en fylgdist með stelpunni sinni með hinu. Hún hafði verið óvenju lengi inni í herberginu sínu og það sem meira var, dyrnar voru lokaðar sem er afar sjaldgæft, nema þegar kallinn ryksugar, en þá rýkur hún inn í herbergið og skellir hurð.
Annað slagið heyrðust ávítur af ýmsum toga: " Verið þið stillt, hættið þessum fíflalátum, Sigga þegiðu á meðan ég tala við þig"
Veit ekki hvar barnið lærir að tjá sig á þennan máta, en það er annað mál.
Hún sviptir upp hurðinni, kemur fram með tvö loðkvikindi í fanginu þeytir þeim inn í "hjónaherbergi " lokar dyrum og segir hátt og skýrt: "Þið eruð í fangelsi og þið komið ekki fram fyrr en þið hættið að slást"
Barnið er ný orðið fjögurra ára.
Eydís Lára Þrastardóttir var með svarta húfu, í splunkunýjum háglansandi stígvélum og þurfti sjálf að sjá til þess að allir færu að lögum hér innanhúss, á þessum hundblauta sunnudegi.
Engin önnur vitni voru að ólátunum, en við skulum trúa og treysta lögreglunni.
27.10.2008 | 21:15
Af því að hausinn á mér skoppar á milli trúar og ekki trúar.......................
á mannfólkið þessa dagana, þá tengi ég ekki við ákveðna frétt um ákveðinn mann sem er ekki útrásarvíkingur.
Helvíti skil ég Bretana vel ef það er satt að þeir hafi verið sviknir af Landsbankanum, sem var svo svikinn af Seðlabankanum, sem var svo svikinn af ríkistjórninni, sem er svo svikin af þjóðinni og vill hana burt úr sínum húsum.
Annars heimta allir gull auðmannanna heim, frysta hallir, snekkjur, bændur og búalið.
Hvað eigum við að gera við útrásargullið ef það kemur heim?
Hver á að fá gullið?
Seðlabankinn?
Skipta jafnt eins og á leikskólanum okkar?
Tíkall á mann?
Hér á þessum bæ er tónlistin talin gullsígildi.
Að framansögðu má alls ekki gera því skóna að við séum ekki ánægð með það sem ekki er að gerast...................
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.10.2008 | 12:06
Þykkar sjálfstandandi lopapeysur..............
soðnar á 90° með hrossa og rollufýlu, stífar eins og þurrkað selskinn, en það er bara í minningunni.
Lopinn í dag er aðeins öðruvísi og bara virkilega þægilegt að klæðast þessum flíkum.
Uppáhalds sokkarnir okkar hér á þessum bæ eru einmitt úr ull, okkur er hlítt og erum bjartsýn eins og forsetafrúin.
Við höfum kúplað okkur að mestu út úr fréttaflóðinu og aðeins fylgst með því helsta sem fer fram á ljósvakanum. Þetta var orðið full mikið að innbyrða með öllu öðru sem þarf að gera. Kolvitlaust að gera í vinnu og svo þarf helmingur okkar mikla og óskipta athygli þessa dagana.
Ég fylgist nú samt með ykkur kæru bloggvinir, þið eruð ómissandi krútt.
Faðm til ykkar allra.................
Dorrit bjartsýn á framtíðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2008 | 18:40
Afsakið mig augnablik.............
á meðan ég trufla ykkur hérna í miðju fjárhagsbókhaldinu, en þessi stelpa er fjögurra ára í dag og þarf að komast að, því hún er orðin stór að eigin sögn.
Pabbinn gerði hlé á vinnu í gær til þess að geta verið með skottinu sínu smá stund, áður en afmælið skall á með öllum sínum þunga kl: 17:00 að staðartíma.
Hann lofaði að koma heim til hennar í kvöldkaffi og þegar þau kvöddust fyrir krakkapartíið sagði hún:
"Þú verður vinur minn í kvöld, pabbi" ..........og eins og hendi væri veifað fylltust augu kallsins af einhverjum torkennilegum saltvökva.
Afmælisgjöfin getur hlegið, hjalað, drukkið úr pela, sofið og vaknað við hávaða "hágrenjandi"
Svo var farið með 4 lítra af ís með sér í leikskólann í morgun fyrir alla krakkana þar, því það á "alltaf að skiptast á og gefa meðsér" þó einhver hafi kannski einhvertíma kastað pínu sandi í augu vor, í hita leiks.
Hafið gott kvöld öll saman nú á þessum "ögurstundum".................
10.10.2008 | 19:52
Útþynntur Hafragrautur - Hópfaðm og myglað breskt togarakex...........
Á malbikuðu bílaplani fyrir framan risavaxið hús í dönsku fánalitunum stundaði fólk hópfaðmlög, kyssingar og örugglega eitthvað annað álíka dónalegt.
Ég slafraði í mig útþynntum Hafragrautnum frá síðasta mánudegi, maulaði gamalt kex og horfði öfundaraugum á allt keleríið með í augunum.
Gæti alveg þegið eitt og eitt hópfaðmlag eftir fréttirnar, en ekki svona hrikalega opinberlega samt.
Sólin var að setjast á bak við nýju Landsbankahöllina hér á Skipaskaga rétt áðan og ég var að huxa um hvað skyldi nú verða um þetta glæsilega hús, þ.e.a. segja neðstu hæðina þar sem banki allra landsmanna átti að hreiðra um sig í næsta mánuði.
Kannski verður þarna hinn sameinaði Ríkisbanki vorra Íslendinga. Hef nefnilega stundum velt því fyrir mér af hverju þurfi að vera fjórir bankar hér í þessum bæ sex þúsund sála.
Svo ef þið kæru hópfaðmarar eigið leið fram hjá Eyrarflötinni eftir myrkur, þá er hér þiggjandi knúss.
p.s: Neibb vitleysa er þetta. Ég þakka fyrir það sem ég hef, ég hef svoooooo mikið.
Róum okkur í kveldinu og lesum góða bók, undir rúmi................
2.10.2008 | 13:45
Ég er stofnfélagi og á hlut í fjórum sjóðum..............
sem hafa ávaxtað sig afskaplega vel. Enda var stofnað til þeirra af eins mikilli kostgæfni og kostur var á hverjum tíma. Stofnfélagar voru ekki valdir af handahófi enda mikið sóma fólk allt saman að mínu mati.
Elsti sjóðurinn er 24. ára og skilar miklum hagnaði.
Miðjusjóðirnir tveir eru einnig í góðum málum.
Yngsti sjóðurinn sem er aðeins þriggja ára, hefur líka skilað góðri ávöxtun frá stofndegi. Sá sjóður verður fjögurra ára þann 13. þessa mánaðar, og eitthvað segir mér að afmælisþema dagsins verði í bleikari kantinum.
Kæru bloggfélagar. Tilraun minni á vinsældaraukningu er lokið. Árangurinn var eins og ég bjóst við, einhver hundruð sæti upp á við. Nenni ekki meir í þeim málum.
Og nú verður líklega bara bloggað um brauða og kökugerð hér eftir.
Svo sígum við bara aftur niður á okkar stað, þar sem svo ágætt er að vera.