5.11.2008 | 21:31
Ískur heyrðist í hjólbörðum, þegar kolsvartur jeppi eins og bankastjórarnir áttu f.kr................
snarhemlaði upp á gangstétt það nálægt dyrunum að tígulega konan með nýtísku gleraugun sem snaraðist út úr bílnum hefði getað stigið beint inn á gólf hjá mér, ef útidyrnar mínar hefðu ekki aðskilið okkur.
"Guð minn góður" hugsaði ég. "Nú eru þeir komnir að sækja mig"
Þegar hún þeytti upp útidyrahurðinni og gekk hröðum skrefum að afgreiðsluborðinu, sá ég að hún var í splunkunýjum ítölskum leðurstígvélum.
Ég var eldfljótur að átta mig og var tilbúinn með svarið: "Ég hef aldrei unnið í banka eða átt hlutafé í svoleiðis fyrirbæri" en þurfti ekki á því svari að halda, því hún rétti eldsnöggt út höndina sem ég greip með báðum.
"Hæ ég heiti Hrönn Sig og blogga, langaði bara að skoða þig"
"Bæ"
Þar með var hún rokinn út í svarta jeppann, sem einkabílstjórinn hafði bakkað út á götu og lagt eins og venjulegir viðskiptavinir mínir gera.
Ég er ennþá að átta mig, en það hefst að lokum......................
3.11.2008 | 21:54
Ég keypti bók, eiginlega af því að ég ætlaði að kaupa bók..........
en samt ekki akkúrat þessa bók, heldur aðra bók. Ég keypti sem sagt vitlausa bók. Ekki að hún sé vitlaus, hef ekki lesið hana, heldur frekar röng, eða öfug, skökk eða bara ekki sú bók sem ég ætlaði að kaupa. En keypti hana samt.
Arkaði inn í Eymundsson og beint að borði sem á að vera fyrir nýjar bækur. Borðið er svona álíka stórt og eldhúsborðið mitt. Bókunum var raðað í píramída og efst trónaði átta kílóa bók um bókaþjóf.
Undurþýð stúlkurödd andaði í eyrað á mér: "Get ég aðstoðað"?
Ég spurði um bókina Sá einhverfi og við hin, eftir Jónu Gísla.
Hún gramsaði í tölvunni og sagði: "Nei, en við getum pantað hana fyrir þig"
Blóðið frussaðist upp í heilann og ég sá rautt, eins og alltaf þegar orðið "pantað" er notað gegn mér, sem er orðið ansi oft hér í þorpinu mínu.
Leit eldsnöggt í kring um mig og sá bók með titlinum Segðu mömmu að mér líði vel, greip hana og sagði:"Nei takk"
Þess vegna keypti ég sögu um ástir eftir Guðmund Andra, sem er kannski góð bók, en ekki sú sem ég ætlaði að kaupa.
Það sem mér þykir merkilegast við þetta er að ég kaupi óvart bók um ástir, fyrirbæri sem rafbylgjur heila míns hafa ekki náð að skrá og skilgreina almennilega hingað til, kannski sökum utanaðkomandi rafbylgna, en bara kannski.
Hins vegar gat það hafa verið titill bókarinnar sem réð úrslitum, sem mér finnst bara skolli góður af ólesinni bók að vera.
Finnist ykkur eitthvað torskilið við þessa færslu, þá þið um það, ég er farinn að lesa ástarbók......................
Bækur | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.11.2008 | 18:11
Slagsmálahundar í fangelsi og ný háglansandi stígvél.................
er eitt af því sem stendur upp úr eftir helgina.
Faðir hennar var í rólegheitum að horfa á Silfur Egils Mikla með öðru en fylgdist með stelpunni sinni með hinu. Hún hafði verið óvenju lengi inni í herberginu sínu og það sem meira var, dyrnar voru lokaðar sem er afar sjaldgæft, nema þegar kallinn ryksugar, en þá rýkur hún inn í herbergið og skellir hurð.
Annað slagið heyrðust ávítur af ýmsum toga: " Verið þið stillt, hættið þessum fíflalátum, Sigga þegiðu á meðan ég tala við þig"
Veit ekki hvar barnið lærir að tjá sig á þennan máta, en það er annað mál.
Hún sviptir upp hurðinni, kemur fram með tvö loðkvikindi í fanginu þeytir þeim inn í "hjónaherbergi " lokar dyrum og segir hátt og skýrt: "Þið eruð í fangelsi og þið komið ekki fram fyrr en þið hættið að slást"
Barnið er ný orðið fjögurra ára.
Eydís Lára Þrastardóttir var með svarta húfu, í splunkunýjum háglansandi stígvélum og þurfti sjálf að sjá til þess að allir færu að lögum hér innanhúss, á þessum hundblauta sunnudegi.
Engin önnur vitni voru að ólátunum, en við skulum trúa og treysta lögreglunni.
29.10.2008 | 15:20
Blóðug mánaðarmót á Akranesi - Horft til Himnaríkis...............
Vilhjálmur verkalýðskólfur okkar Skagamanna dregur ekki fjöður yfir hörmungarnar og vill koma íslenskum heimilum til aðstoðar.
Flottur á´ðí en tillögur óskast Villi.
Ég legg til að fyrirtækjum verði hjálpað yfir erfiðasta hjallann næstu tvo mánuði, svo þau geti haft fólk í vinnu. Og þá á ég ekki bara við risana heldur líka smáfyrirtækin og einyrkjana.
Það er löngum vitað að margt smátt gerir helling af litlu, samkv. ábendingu.
Yfirvofandi mynd ert tekin í átt að Himnaríki sumra bloggara, og ekki trubbla mig með bjánalegum athugasemdum.
Farinn að vinna þriggja manna starf aleinn og yfirgefinn.............................
![]() |
Á fimmta tug sagt upp á Akranesi í vikunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
27.10.2008 | 21:15
Af því að hausinn á mér skoppar á milli trúar og ekki trúar.......................
á mannfólkið þessa dagana, þá tengi ég ekki við ákveðna frétt um ákveðinn mann sem er ekki útrásarvíkingur.
Helvíti skil ég Bretana vel ef það er satt að þeir hafi verið sviknir af Landsbankanum, sem var svo svikinn af Seðlabankanum, sem var svo svikinn af ríkistjórninni, sem er svo svikin af þjóðinni og vill hana burt úr sínum húsum.
Annars heimta allir gull auðmannanna heim, frysta hallir, snekkjur, bændur og búalið.
Hvað eigum við að gera við útrásargullið ef það kemur heim?
Hver á að fá gullið?
Seðlabankinn?
Skipta jafnt eins og á leikskólanum okkar?
Tíkall á mann?
Hér á þessum bæ er tónlistin talin gullsígildi.
Að framansögðu má alls ekki gera því skóna að við séum ekki ánægð með það sem ekki er að gerast...................
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2008 | 16:53
Fitusog og silikonmeðferð bönnuð.........................
Þvílík móðgun við blessaðar skepnurnar og kynjamisrétti á hæsta stigi.
Í hrútaþukli Strandamanna er allt leyfilegt, hví ekki á Melrakkasléttunni líka?
Hef heyrt að nafnið Rakel þýði gimbur.
Sel það dýrara en ég keypti það.........................
![]() |
Fegurðarsamkeppni gimbra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.10.2008 | 15:37
Fékk hland fyrir hjartað...........
þegar ég las hér á fárveiku Morgunblaðinu, að það væri landsleikur í gangi.
Þetta kom eins og þruma úr heiðtæru hálofti og sló mig beint í aldraðan minnislykilinn, sem vaknaði af dvala og lét mig tengja við fréttina.
Þá kom í ljós að þetta var bara skvísu-landsleikur.
Ok held áfram að skúra og hlusta á káká syngja þú og ég.............
![]() |
Ísland færðist skrefi nær EM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
24.10.2008 | 18:44
Gæti þvegið tvo milljarða í einni vél í þúsundkrónuseðlum................
og jafnvel nokkrar nærbuxur með, væri þess þörf.
En auðvitað eru þetta vel þvegnir peningar sem við fáum á baukinn, frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og þurfum ekkert að borga til baka fyrr en eftir tvö ár.
Skítt með það. Me and myself þarf bara að þvo um það bil 250 kíló af vaðmálsbrókum á morgun, og svo upp úr því verða skriðbeltin skrúfuð undir bílinn.
Það hefur verið á sveimi hér á Skaga vorum sá orðrómur að Hvíta-Gullið sé farið að setjast á hálendið og ekki seinna vænna að kíkja eftir því.
Þó verður líklega ekki komið nálægt Heklu vinkonu, því hún er sögð vera að fá gubbupestina.
Eina vandamálið er að gullvökvinn sem bíllin gengur fyrir er ekki alveg ókeypis og maður gæti þurft að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til að fyll´ann takk.
Mín skoðun er þekkt
en ég hef ekki hugmynd um hverig ég á að borga Alþjóða geðdeildarsjóðnum til baka, só what .............
24.10.2008 | 12:03
Ég þygg stundum rafræna fjárhagsráðgjöf takk fyrir og hér kemur ein.
Ef þið hefðuð lagt 100.000 krónur í að kaupa hlutabréf Nortel fyrir einu ári síðan væri verðmæti bréfanna í dag um 4.900 krónur.
Hefði sama fjárfesting verið lögð í Enron væri sú eign í dag um 1.650 krónur.
Hefðuð þið keypt bréf í World Com fyrir 100.000 krónur væri minna en 500 kall eftir.
Hefðuð þið keypt í Landsbankanum, Glitni eða Kaupþing væru 0 kr. eftirHefði peningurinn hins vegar verið notaður til að kaupa Thule-bjór fyrir einu ári síðan þá hefði verið hægt að drekka hann allan og fara síðan með dósirnar í endurvinnslu og hafa um 21.400 krónur upp úr því.
Þegar ofangreint er athugað virðist vera vænlegur kostur fyrir fjárfesta að drekka stíft og endurvinna...........
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.10.2008 | 20:54
Af tvennu illu............
tek ég bloggið fram yfir sjónvarp í kvöld, þó með þeim fyrirvara að eyða ekki nema sem svarar einum útrásarklukkutíma í það.
Sjónvarpsdagskráin er líka í kreppu eins og við var að búast. Þó var pínu gaman að sjá Sigmar græta forsætisráðherrann.
Þórhallur flautaði leikinn af allt of snemma, skaust eins og píla á bak við nýja settið, þreif í spaðann á Geir og skammaði Sigmar, held ég.
Ég reyni að opna annað augað endrum og eins til þess að fylgjast með langa orðinu (efnahagsástandið) en nennan til þess fer þverrandi.
Búinn að lesa báðar bækurnar í bókaskápnum mínum og verð að fara á stúfana og leita uppi góða bók.
Hún má ekki fjalla um peninga, morð, vændi, Austurlönd-fjær, Bretland, útrás, Davíðs-sálma, Geirfugla, brauð og kökur, Pútín, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, prjóna-skap, }ïqô·╩╚â~∟Ü{
Ok, ok ég skal taka pilluna mína.
Bloggið pirrar mig já, í augnablikinu en það snjóar á morgun .............................
Bækur | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)