o - Hausmynd

o

Lagst undir hnífinn – Minnisblað - Ekki fyrir viðkvæma.........

1203

Ég mætti á húðsjúkdómagreiningarstöðina á slaginu tíu í morgun og var vísað í sæti á mjög löngum gangi með mörgum hurðum.

Maður klæddur í grænan jakka kom út um einar dyrnar raulandi lag (Abba held ég) og gekk hröðum, háværum klossaskrefum framhjá án þessa að sýna mér nokkur merki samúðar.

 

Ég þreif blað af borðinu og sökkti mér ofan í myndir af frægum bringuhárum og berum brjóstum, held að blaðið heiti Séð og Heyrt árgerð 1970 og eitthvað.

 

Heyrði nafnið mitt hvíslað, leit upp og sá einhverja þúst innst í ganginum. Hvíslið hlaut að koma þaðan. Ég stóð upp og gekk að þústinni, sem reyndist vera mjög vinaleg  kona sem bauð mér inn í herbergi þar sem ég mátti gjöra svo vel að setjast.

Hún bauð mér að segja sér hvað amaði að mér, eins og það væri nú ekki augljóst.

 

“Tveir kostir í stöðunni”, sagði hún eftir að hafa skoðað blettinn minn. Að koma seinna og láta taka sýni eða gera það núna. En þá þarf að skera í ennið, sauma og setja plástur. Ég hugsaði mig um í smá stund áður en ég ákvað að leggjast bara strax undir hnífinn og taka afleiðingunum.

 

Á skurðarborðinu breiddi hún grænan dúk með gati yfir andlit mitt og þá fyrst fann ég hve máttvana maður gat verið gagnvart sjúkdómum. Ég velti fyrir mér hve langan tíma uppskurðurinn tæki og hvort ég kæmist heim í dag, þegar hún bauð mér að standa upp og gjöra svo vel.

 

Ég á að koma aftur eftir viku því hún vill taka saumana sjálf svo enginn geti kennt henni um ef það hefur myndast ör, og þá fæ ég niðurstöðu úr rannsóknum.

Ég spurði hana hvort ég þyrfti að hafa áhyggjur, og hún sagði mér að vera ekki að velta mér uppúr því, þannig að þá er ég líklega ekki með Holdsveiki eins og sumir hafa haldið fram.

 

Komst í heilu lagi heim og í Einarsbúð, en þar fyrir utan var rauður sportbíll og ungur maður lá á flautunni. Þegar ég kom inn í búðina mætti ég bloggvinkonu minni sem heilsaði kurteislega úr hæfilegri fjarlægð, um leið og hún horfði á ennið á mér.

 

En konan sú sýndi mér engin merki samúðar þó hún vissi vel að ég væri ný komin af skurðarborðinu.

 

Reyni að bera mig mannalega og taka einn dag í einu.............


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Æ, sorrí karlinn minn. Hefði átt að spyrja þig hátt og snjallt þarna fyrir framan alla hvernig hefði gengið. Sjittt. Þóttist vera að sýna tillitssemi en særði þig í staðinn. Næst kyssi ég á bágtið og horfi glyðrulega beint á ... uuuu ... hökuna á þér. Myndræn færsla hjá þér ... og líka fyndin.

Guðríður Haraldsdóttir, 3.9.2008 kl. 23:10

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Góðan bata Þröstur minn

Ía Jóhannsdóttir, 4.9.2008 kl. 08:07

3 identicon

Láttu þér líða vel gamli :)

farðu svo að koma þér í borgina 

Ragnar þór (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband